Námskeiðið kom á hárréttum tíma inn í mitt líf þegar Covíd-þreyta var að gera vart við sig hjá mér eftir ótrúlega gott úthald í 10 mánuði.
Ég fór fyrir nokkrum árum á 7 vikna námskeiðið Máttur athyglinnar hjá Guðna í Rope Yoga Setrinu sem leiddi svo af sér að ég fór á Rope Yoga námskeið sem hentaði mér mjög vel og kveikti hjá mér nýjan áhuga. Ég hefði svo sannarlega haldið áfram ef ég hefði ekki þurft að fara um langan veg í hvern tíma.
Pistlar Guðna hafa vakið mig til margra ára, fyrst sem tölvupóstur og seinna sem facebook-færslur. Afar nærandi málflutningur, einföldun á orðum og orðfæri sem ég hafði gert flókið í huga mér. Ég hef ekki alltaf verið sammála Guðna hvernig hann beitir orðum sínum en það hefur leitt mig til dýpri skilnings á málinu okkar. Það sem 66 daga vegferðin Máttur þakklætis hefur haft djúpstæð áhrif á mig. Það hefur beint sjónum mínum að þakklætinu í öllum aðstæðum. En það hefur líka rótað upp í mér tilfinningum sem ég hef haldið í dvala lengi. Þegar ég hlustaði á hvað þessar tilfinningar vildu mér þá fann ég að ég þyrfti að taka svolítið til í mínu lífi, fækka skyldum, leyfa mér að gera minna og setja bæði mér og öðrum ný mörk. Námskeiðið var því lífsbreytandi og lífsstílsbreytandi.
Ég er að æfa mig að láta af gömlum vana og leiðum siðum og kynnast nýjum miðaldra manni sem vill ekki vera fastur í viðjum vanans heldur læra, skilja og breyta.
Guðni hefur einstakt lag á að mæta manni þar sem maður er, hreyfa við manni og vekja mann til vitundar. Ég mæli með Mætti þakklætis og öllu starfi þeirra hjóna af öllu hjarta. Þau eru umbreytandi og mannbætandi í störfum sínum.
Þorvarður Guðmundsson