Lífið er kraftaverk
Viðtal Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is
- birtist í morgunblaðinu 3. apríl 2011


Guðni Gunnarsson: „Minn boðskapur er að himnaríki sé hér en ekki þar.“
Hamingja er heilt hjarta, segir Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi sem eitt sinn var dauðhræddur við sjálfan sig en ákvað svo að fyrirgefa sjálfum sér. Hann ræðir um mátt viljans, ábyrgðina sem við verðum að taka á sjálfum okkur og hamingjuna sem allir leita að.

Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi rekur Rope yoga setur í Listhúsinu í Laugardal og þar er stunduð alls kyns holl hreyfing en setrið er einnig vagga fyrir umræðu um lífsstíl og andlegan þroska. Nýlega sendi Guðni frá sér bókina Máttur viljans þar sem hann fjallar um hug- og heilsurækt.

Bókin heitir Máttur viljans, hversu mikill er máttur viljans?

„Máttur viljans er óendanlegur, það er að segja ef maður er vaknaður til vitundar. Að vakna til vitundar þýðir að maður skilur að einstaklingurinn er orka, sál og kærleikur. Við erum geislar Guðs. Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. En það er ekki nóg að vakna til vitundar um orkuna sem í manni býr heldur verður maður að taka ábyrgð á henni og þá fyrst hefur maður frjálsan vilja. Þeir sem eru tilbúnir að taka ábyrgð hafa endalausan mátt. Það er ekki á ábyrgð annarra hvernig okkur líður, það er á okkar eigin ábyrgð. Ef einhver gerir mér eitthvað þá ræð ég hvernig ég upplifi það. Ef ég ætla að upplifa það sem fórnarlamb þá er upplifun mín önnur en ef ég ætla að upplifa það sem tækifæri til að breyta eða skapa.“

Ísskápurinn er afdrep flóttamannsins
Þegar þú horfir á ástandið í þjóðfélaginu í dag með kenningar þínar í huga, hvað sérðu þá?

„Ég sé söguna um manninn sem eltir snákinn sem beit hann. Ég sé reiði og vonbrigði vegna þess að menn vilja ekki taka ábyrgð heldur vilja þeir að aðrir taki ábyrgð fyrir þá. Það er mikil afþreying í gangi og stór hluti þjóðarinnar vill frekar fara á hjómleika og í bíó en að horfa í eigin barm. Margir nota svo mat sem afþreyingu. Þetta er skiljanlegt því það er búið að ganga svo mikið á og við höfum lifað miklar hremmingar. En við höfum ekki misst neitt. Tækifærin eru þarna ennþá og mannauðurinn sömuleiðis en við erum ekki að nýta okkur þetta.“

Af hverju segirðu að fólk noti mat sem afþreyingu?

„Við notum mat sennilega hundrað sinnum meira en áfengi, eiturlyf og tóbak til að viðhalda óhamingju. Við borðum 60-80% meira af mat en við þurfum, og þetta á jafnvel við um grannt fólk. Ísskápurinn er afdrep flóttamannsins. Við högum okkur mjög sérkennilega og erum alltaf að leita að einhverju til að réttlæta afþreyinguna, hvort sem það eru bíómyndir, bækur, matur eða áfengi. Matur er orka og þeir sem borða sér til óbóta eru að næra vansældina.“ 

Var dauðhræddur við sjálfan mig
Í bókinni er fjallað um sjálfstraust, hvernig öðlast maður varanlegt sjálfstraust? 

„Að fyrirgefa sjálfum sér er fyrsta skref í átt til velsældar og sjálfstrausts. Þegar maður fyrirgefur sér endurheimtir maður þá orku sem maður hefur varið í höfnun, iðrun og eftirsjá og getur nýtt hana í mikilvægan tilgang. Af hverju vantreystum við öðrum? Er það ekki af því að við vantreystum sjálfum okkur? Ef ég sem einstaklingur er hræddur, er ég þá hræddur við eitthvað annað en sjálfan mig? Er ég ekki bara hræddur við mína getu til að vinna úr áreiti? Mér finnst ég ekki traustsins verður af því að ég er búinn að ljúga, svíkja og pretta sjálfan mig frá blautu barnsbeini. Uppáhaldsiðjan mín er kannski frestun og ég skil ekkert í því að ég kem of seint annan hvern dag. Ég reyki, borða meira en ég tel mig þurfa og segi hvítar lygar annað slagið. Svo skil ég ekkert í því að ég er alltaf fullur af orkuleysi og vantrausti. En auðvitað er það þannig að ef maður lítur niður á sig lítur maður niður á sig.“

Hvað með þig, hefur þú litið niður á sjálfan þig og efast um þig?

„Já, ég hef gert allt þetta. Ég kem úr umhverfi þar sem ég hafði snemma tækifæri til að horfa á ýmsar hliðar lífsins. Þegar ég var að alast upp í Keflavík var mikill uppgangur. Menn unnu myrkranna á milli og drukku brennivín þess á milli. Foreldrar mínir voru báðir í neyslu. Móðir mín andaðist þegar ég var nítján ára af völdum neyslu. Pabbi var AA-maður í þrjátíu og fimm ár og stóð sig með sóma. Mjög ungur gerði ég mér grein fyrir því að mér stóð mikil ógn af sjálfum mér. Ég var svo ástríðufullur og því veikur fyrir að mörgu leyti.

Snemma varð ég dauðhræddur við sjálfan mig og mér leið illa. Ég skammaðist mín og mér fannst ég vera minni maður en aðrir vegna umhverfis míns, neyslu og hegðunar. Ég treysti ekki sjálfum mér. Ég efaðist um að lífið væri gott af því ég upplifði mikla þjáningu. Svo fór ég að gera mér grein fyrir því að með því að stunda líkamsrækt, borða hollan mat og segja sannleikann og standa við það sem ég sagði þá öðlaðist ég kraft. Mér fór að líða betur með sjálfum mér af því að ég gat staðið við það sem ég setti mér. Ég bjó til umgjörð sem snerist um að sanna fyrir sjálfum mér að mér væri treystandi.

Þegar ég var í kringum tvítugt þá lenti ég nánast í gjaldþroti. Ég hafði laðað að mér verðmæti og viðskipti sem ég gat ekki staðið undir. Ég gekk þannig frá samningum að ég fór halloka og þurfti að berjast til að halda lífi. Fjármunirnir fóru allir út um gluggann. Ég byrjaði upp á nýtt í viðskiptum þegar ég var þrítugur og smám saman var ég kominn í sama farið og tíu árum áður. Ég varð magnþrota, flæktur og týndur í minni eigin tilvist. Ég líki þessu oft það að hafa barist við vindmyllur.

Eftir skilnað fór ég til Bandaríkjanna, 35 ára gamall, og ætlaði að vera þar í tvo mánuði en ílengdist og bjó þar í sextán ár og starfaði lengst af sem lífsráðgjafi. Í Bandaríkjunum fékk ég tækifæri og rými til að horfa á tilvist mína frá öðru sjónarhorni. Þá fór ég að skilja að ég hafði tvívegis eða jafnvel þrívegis verið að viðhalda sama ferlinu lífi mínu. Það ferli byggðist á skömm. Mér fannst ég ekki vera nógu góður og þátttaka mín í lífinu snerist fyrst og fremst um að verða maður á meðal manna. En þegar á hólminn var komið þá þoldi ég ekki við í ljósinu og byrjaði að grafa undan mér á einn eða annan hátt.

Í Bandaríkjunum kynntist ég mönnum sem kenndu ýmiss konar lífsspeki. Þeir voru að hvetja fólk til dáða og telja því trú um að það gæti allt. En ég segi: Ég hef enga löngun til að kveikja eld hjá fólki þar sem ekki er innistæða. Við verðum að byrja á því að endurheimta okkur sjálf og okkar eigið traust. Við byrjum á því að vinna litla sigra og byggjum þannig upp sjálfstraust okkar.

Sálfræðin á bak við bók mína snýst um það að þú getur ekki öðlast hamingju nema þú eigir inni fyrir henni og þolir við í ljósinu. Við getum með mjög einföldum aðgerðum öðlast traust á okkur sjálfum og svo smám saman vaxið ásmegin og fyllst orku og hugrekki sem gerir okkur kleift að brjótast út úr ferlinu og létta álögunum sem við höfum sjálf viðhaldið.“

Hamingja er heilt hjarta
Sérðu mikið af óhamingjusömu fólki?

„Ég sé ekki mikið af hamingjusömu fólki. Þegar þú horfist í augu við fólk, hvað sérðu þá mörg brosandi augu sem geisla af áræði, hamingju og gleði? Mér finnst ekki nóg að vera sáttur, það finnst mér einungis vera málamiðlun. Ég vil vera hamingjusamur og njóta þess að vera með sjálfum mér. Ég spyr: Er fólk almennt tilbúið að vera með sjálfu sér? Flestir segjast vilja vera öðruvísi en þeir eru. Fólk segir við sjálft sig: Ég ætla að verða betri manneskja þegar ég er búinn að kaupa mér nýjan bíl... þegar ég finn konu. Minn boðskapur er að himnaríki sé hér en ekki þar.“ 

En heldurðu að það sé til líf eftir dauðann?

„Ég held að það sé ekki til neinn dauði, bara umbreyting. Ég er sannfærður um að við höfum aldrei dáið heldur birst aftur og aftur. Lífið er kraftaverk og mikil gjöf. Ég treysti því og trúi að við höfum aldrei dáið, aldrei fæðst heldur alltaf verið.“ 

Nú eru örugglega allir að leita að hamingjunni, en fólk er svo upptekið af þeirri hugmynd að finna manneskju sem gerir það hamingjusamt. Hvað segirðu um það viðhorf?

„Af hverju viljum við að aðrir beri ábyrgð á því hvernig okkur líður? Ég spyr fólk stundum hvort það sé gift. Já, segir viðkomandi. Ég spyr hann: Ertu heitbundinn sjálfum þér? Þá skilur hann ekki hvað ég á við. Ég segi: Heitbast þú þér áður en þú heitbast annarri manneskju? Nei, er svarið og þá spyr ég: Hvaða hluta af þér varstu þá að heitbindast?

Fólk heitbinst annarri manneskju án þess að vera í sambandi við sjálft sig. Einstaklingurinn er oft tvístraður og brotinn og ég viðurkenni að ég hef verið það líka. En við verðum að skilja að við getum breytt sjálfum okkur og síðan heiminum bara með því að breyta viðhorfum okkar. Við eigum að hætta ofbeldi gagnvart okkur sjálfum, í huga, orðum, hegðun og mat og segja: Ég er geisli Guðs og hvað ætla ég að gera fyrir mig, umhverfi mitt og landið mitt? Hvernig ætla ég að verja minni orku?

Ég segi alltaf að fólk sem leiti að hamingjunni geti ekki fundið hana. Það er hægt að finna hamingjuna en ekki með því að leita að henni. Hamingja er kyrrð, friður, alsæla og þakklæti. Þegar maður finnur þakklæti í hjarta sínu þá er þar hvorki myrkur né skortur. Hamingja er heilt hjarta. Við getum aldrei orðið hamingjusöm fyrr en við náum tengingu við okkur sjálf og annað fólk. Þá erum við komin í takt við slátt hjartans og erum í samhljómi við aðra. Þá skiljum við að lífið snýst um okkur, ekki bara mig. Þá verðum við hamingjusöm. Sjálfur er ég hamingjusamur þegar ég blómstra. Sá sem hefur engan tilgang verður ekki hamingusamur því tilgangurinn er kjölfesta hamingjunnar.“