Vinaþel

Að upplifa sanna vináttu, greiðvikni og hjálpsemi er algjörlega einstakt. Systurnar auðmýkt og þakklæti eru þá ekki langt undan.

Vissuð þið að í mörgum bílum í dag eru ekki varadekk heldur efni sem á að sprauta inn í dekkið (og sem eyðileggur það)? Þetta vissi ég ekki og var því alveg grunlaus þegar við vinkonurnar voru á heimleið eftir dásamlega helgi á Vestfjörðum og annað framdekkið skemmdist. Okkur til happs komu vinahjón einnar okkar í kjölfarið og hófust þá tilraunir við að lappa upp á dekkið.

Eftir árangurslausar björgunaraðgerðir, keyrðum við að virkjun nokkurri sem var í næsta nágrenni. Þar fundum við starfsmann sem vildi allt fyrir okkur gera, opnaði verkstæðið og hóf að setja tappa í dekkið. Hann benti okkur síðan á verkstæði með ný dekk en þangað var um einnar og hálfrar klukkustundar akstur og lögðum við af stað fullar bjartsýni.

Dömurnar voru nú ekki lengi í Paradís því nokkrum mínútum síðar, þegar uppá heiði var komið sprakk dekkið og algjörlega fyrirséð að ekki væri hægt að komast lengra á bílnum. Vinahjónunum fannst ekkert sjálfsagðara en að keyra eina okkar með  dekkið á verkstæðið, sem nota bene var langt úr leið.

Þessi dekkjarúntur tók um þrjár klukkustundir og sátum við hinar í rjóðri við bílinn í góðu yfirlæti og spjölluðum. Enginn kvartaði, enginn óskaði sér annars hlutskiptis og enginn fór á taugum þó svo að ferðalagið stefndi í rúmlega sex klukkustundir lengur en áætlað var.

Þegar við vorum rétt komnar af stað á nýja dekkinu, mættum við ferðamanni á biluðum bíl. Ekki kom annað til greina en að aðstoða manninn og eftir að hafa keyrt um heiðina, fundið punkt sem náði góðri símatengingu, tengdum við bifvélavirkjann okkar í næsta firði við manninn.

Það er dásamlegt að þiggja aðstoð veitta með opnu hjarta en ekki síður að fylgja því eftir og gefa áfram í kærleik. Það voru þreyttar vinkonur sem renndu í borgina klukkan tvö um morguninn en alsælar með ferðina og vináttuna.

 

Comment

There is no comment on this post. Be the first one.

Leave a comment