Brjálaða Bína

Ég brást við með látum þegar dóttirin tilkynnti að hún hefði keypt flugmiðann í jólafríið – á öðrum dagsetningum.

Elsku stelpunni minni brá þegar hún sá hve flugfargjöldin höfðu hækkað upp úr öllu valdi á þeim dagsetningum sem við vorum að skoða. Hún brást við í hvelli og með aðstðo mágkonu sinnar keypti hún flug út á jóladag fyrir sig og þá seinna heim í janúar en áætlað var. Bróðir hennar og mágkona höfðu keypt sér flugið fyrir jól og þá var bara (að þeirra mati) eftir að finna út með minn flugmiða.

Þegar hún tilkynnti mér með miðakaupin, tapaði ég mér hreinlega – brást hin versta við og sagðist vera brjáluð. Ég gat ekki klárað símtalið og lagði á, sendi þeim siðan pirrandi skilaboð á messenger og spurði hvernig þeim hefði í veröldinni dottið þetta í hug? Breytt jólaplönunum að mér forspurðri sem þýddi að við dóttir mín værum tvær yfir jólin á Íslandi en hin tvö annars staðar – og bætti síðan aftur við að ég væri brjáluð.

Þegar ég jafnaði mig, valdi ég viðbragð og sagði þeim að þetta væri einfaldlega ekki ásættanlegt, bað þau um að fá miðakaupunum rift og ef það væri ekki hægt þyrfti dóttir mín einfaldlega að bera þann kostnað, ég mundi ekki borga þennan miða.  Ég ætlaði ekki að hafa þetta svona, við hefðum ákveðið annað og færum því öll fyrir jól og yrðum saman – punktur og basta.

Þeim brá verulega við þessi viðbrögð mín og þegar ég jafnaði mig hitti ég þau og útskýrði afhverju ég brást svona við, að þetta snérist  fyrst og fremst um stjórnsemi mína, að ég upplifði að mér væri stillt upp við vegg og þoldi ekki að mínum plönum væri breytt si svona.

Lærdómurinn er minn fyrst og fremst. Ég fór í óttann og skortdýrið í staðinn fyrir ástina og kærleikann. Þau gerðu sitt besta.