Höfnun og blessun

Já, ég var svo sannarlega tilbúin í að veita mér athygli þegar ég rakst á auglýsingu á Instagram; Bulletproof against rejection.

Tilbúin í ferðalagið inn á við, lokaði ég augunum, dáleiðarinn taldi niður og eftir skamma stund var ég stödd fyrir utan æskuheimili mitt. Ég bauð mér inn, fór að herbergisdyrunum mínum, opnaði og sá litlu stelpuna – mig – sitjandi á rúmstokknum. Ég talaði við hana, spurði hana nokkurra spurninga. Það kom mér ekki á óvart þegar hún gat ekki svarað því hver elskaði hana.

En hvar var höfnunin? Hvar upplifði hún hana?

Fyrst var ég leidd inn í 6 ára bekkinn minn. Þar vorum við að teikna fjölskylduna okkar, ég gat ekki teiknað mína því tilfinningin var að ef ég teiknaði mömmu og pabba þá væri hún ekki sönn, því þau bjuggu ekki hjá mér. Afi og amma voru ekki foreldrar mínir og áttu mig ekki – eins og þau margoft sögðu mér – svo ég gat eiginlega ekki teiknað þau heldur.

Næst fór ég í leikskólann minn þar sem amma var að sækja mig og ein stelpan var að velta því fyrir sér hvort ég ætti ekki mömmu sem kæmi að sækja mig eins og hennar mamma kæmi að sækja hana. Mín beið ekkert móðurlegt faðmlag eins og sú stelpa fékk heldur kom amma, kallaði á mig og ég fylgdi.

Þriðja og síðasta dæmið sem kom upp í dáleiðslunni var þegar ég var ungabarn og drakk úr pela í fanginu á ömmu, ropaði og var sett út í vagn – ekkert óþarfa kjass eða hjal við litlu stelpuna heldur vann amma sitt verk eins og hvert annað skylduverk – hún var jú sú sem þurfti að hugsa um barnabarnið en þurfti líka að vinna hin verkin.

Það gera allir sitt besta, hvernig við upplifum það er undir okkur komið. Þetta ferðalag og stefnumót sem ég átti við litlu stelpuna mig, útskýrði margt og hef ég verið að upplifa og vinna með þessar tilfinningar áfram. Ég elska fjölskylduna mína, er þakklát því sem mér var gefið í vöggugjöf, á dásamleg börn og hef náð langt. Það er allt eins og ég vel að hafa það.

Þessi litla stelpa sem ég heimsótti í dáleiðslunni hefur lagt heiminn að fótum sér og við erum orðnar eitt. Takk.