Hugarfarið

Vinkona mín fann ber í brjóstinu á sér, ákvað að veita heilbrigði sínu athygli, að hún færi fallega í gegnum þetta og viti menn…..

Fyrsta sagan sem ég heyrði af konu og brjóstakrabbameini í æsku minni, var sigursaga og hélt ég lengi vel að brjóstakrabbamein væri eitthvað sem allir kæmust yfir. Ég veitti engu öðru athygli og heyrði því ekki hinar sögurnar. En svo lærði ég að það væru ekki allar sigursögur. En þær eru nú samt fjölmargar konurnar sem hafa farið í gegnum brjóstakrabbamein og sigrað – sem betur fer. Ein samstarfskona til margra ára ákvað á sínum tíma að hætta allri lyfjagjöf og lifa lífinu eins og krabbameinið væri ekki til. Nú 30 árum síðar en hún enn í fullu fjöri – var hún heppin eða var það ákvörðunin, hugarfarið? Því kemst ég sjálfsagt seint að en hún er dásamleg og lífssýnin hennar er sterk og nærandi.

Um daginn greindist svo vinkona mín með ber í brjósti – hún þreifar brjóstin reglulega og hélt því að hún hefði fundið berið snemma. Það kom hinsvegar í ljós að berið hafði vaxið yfir langan tíma og varð hún hissa á því, miðað við hve oft hún skoðar á sér brjóstin. Hún sagði mér frá þessu, ósköp róleg og sagði að þetta yrði lítil aðgerð, berið tekið ásamt sýni sem mundi sýna eftir um tvær vikur að þetta væri staðbundið og að hvorki væri þörf á aðgerðum né lyfjameðferð í framhaldinu. Ég horði á hana og samþykkti algjörlega hennar sýn á þetta. Hún veitti engum erfiðum ákvörðunum athygli, engum veikindum eða neitt slíkt. Þetta er kona á besta aldri, í fantagóðu formi og sagði hún mér síðan í framhjáhlaupi að þetta væri besti tíminn fyrir hana að þetta gerðist því hún hefði sjaldan eða aldrei verið í betra formi til að vinna með þetta.

Þegar svo niðurstaðan kom úr ræktuninni að ekkert annað hefði fundist að hún væri hrein, var hún líka alveg pollróleg, leyfði mér að blása og mása um verkefni mín – kom því svo snyrtilega að í samtalinu að hún hefði fengið niðurstöðurnar þann daginn og að ekki væri frekari aðgerða þörf……auðvitað.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.