Hrós

Eitt af verkefnum sumarsins voru 17. júní hátíðarhöldin fyrir Kópavogsbæ, mér var hrósað en ég kunni ekki að taka við hrósinu.

Síðustu vikuna hef ég verið að taka við hamingjuóskum vegna 17. júní hátíðarhaldanna. Fyrsta hrósið kom á þjóðhátíðardaginn sjálfan frá tveimur vinkonum mínum sem sátu upp í brekku á Rútstúni, nutu dagskrárinnar og geisluðu þegar þær lýstu hrifningu sinni. Ég muldraði eitthvað takk á móti og hélt svo áfram að vinna. Hrósið tók ég alls ekki til mín, þetta voru vinkonur mínar og ég vissi að þær vildu mér alltaf vel.

Næstu dagar fóru í tiltekt og skýrslugerð um viðburðinn og hvar sem ég kom innan bæjarskrifstofanna fékk ég að heyra ánægjuraddir og hve vel hafi tekist til. Ég þakkaði auðmjúk fyrir en tók hrósinu ekki til mín frekar en öðru – veðrið var jú svo gott að fólk sópaðist að, skemmtikraftarnir voru frábærir og starfsfólkið stóð sig vel.

Það var ekki fyrr en ég fékk hringingu frá einum stjórnanda bæjarins sem hafði setið á vikulegum fundi yfirmanna, þar sem 17. júní hátíðarhöldin bar á góma að ég fór að taka hrósinu til mín. Mér var sagt að mikil ánægja hafi verið látin í ljós með útkomu hátíðarhaldanna  og að dagskráin hafi sjaldan eða jafnvel aldrei verið jafn góð og raun bar vitni í ár.

Þarna gat ég ekki skorast undan hrósinu, dagskráin var alfarið á minni könnu og hafði ég sett hana upp með vissum áherslum sem gekk upp. Ég fór því að velta því fyrir mér af hverju ég væri svona erfið þegar kæmi að hrósi? Af hverju ég gæti ekki bara tekið því og verið ánægð með mig og vel unnin störf? Eitt af því sem ég komst að var að í mínu uppeldi var sjálfsánægja af hinu slæma og að maður ætti ekki að láta velgengni stíga sér til höfuðs – en fyrr má nú rota en dauðrota.

Það hefur verið töluvert lærdómsferli að veita velgengni minni og góðu starfi athygli, þakka fyrir og viðurkenna minn þátt í velgengninni. Já, já, þetta er allt að koma!