Þakklætis dans

Þegar ég sendi vinkonu minni mynd af hálftómum fataskápnum mínum um daginn, áttaði ég mig á því hve langt ég er komin í hreinsunarferlinu.

Við vinkonurnar ræddum um daginn hve margt af því sem við geymum í kringum okkur, hreinlega íþyngir okkur og það án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Þá sagði ég henni frá því að fyrir um sex árum síðan hafi ég byrjað meðvitað að minnka fataskápinn minn og að hann væri frekar léttur í dag. Upphafið af þessari fatahreinsun og neyslubreytingu var þegar fyrrverandi eiginmaður minn missti vinnuna. Þá forgangsraðaði ég og ákvað að föt þyrfti ég ekki í bráð. Í heilt ár keypti ég ekkert nýtt inn í hann og fann þá hve þetta skipti mig litlu máli. Ég átti nóg.

Síðan hef ég tekið meðvitaðri ákvarðanir varðandi alla neyslu og velti ávallt fyrir mér hvort ég þurfi nú þetta eða hitt sem oftar en ekki leiðir til þess að ég hvorki þarf né vil. En ef flík er keypt, þá fer önnur í Rauða krossinn svo einfalt hefur þetta verið. Reyndar hafa fleiri farið út en inn svo fataskápurinn hefur tekið stakkaskiptum og snarminnkað.

Þessa aðferðarfræði hef ég einnig heimfært á allt heimilið svo nú eru færri húsgögn í kringum okkur, færri yfirhafnir í fatahenginu og færri flíkur ekki bara í mínum fataskáp heldur dóttur minnar líka. Sonur minn og tengdadóttir hafa ekki farið varhluta af umræðunni heldur. Svo ekki sé nú minnst á að matarinnkaupin eru orðin meðvitaðri sem leiðir til minni matarsóunar og það er ég sérlega ánægð með.

Þegar ég ákvað að kaupa mér vinnubuxur í vikunni sem leið, var það ánægjuleg uppgötvun að ekki væru nú um auðugan garð að gresja að finna aðrar til skipta þeim út fyrir. Það varð því bolur fyrir valinu.

Þakklæti er mér efst í huga fyrir að hafa farið í þessa vegferð og dansa ég oft af þakklæti og gleði heima hjá mér við minnsta tilefni – dóttur minni ekki til sérlega mikillar skemmtunar en hva, þetta er mín vegferð, mitt þakklæti og minn dans!