Krakkarnir

Í vikunni sem leið vann ég óvænt með erlendum krakkaklúbbi sem hér var staddur á landinu. Fallegt og gefandi verkefni.

Eitt af því sem ég elska við að vinna sjálfstætt eru verkefnin sem virðast stundum detta óvænt í fangið á mér og ég tek fagnandi. Eitt slíkt var í síðustu viku en það var hópur af börnum sem kom með foreldrum sínum til landsins á vegum erlends fyrirtækis.

Þau komu alls staðar að úr heiminum og mörg þeirra töluðu ekki ensku en það virtist ekki skipta máli því við ræddum saman með hjartanu. Ef eitthvað kom uppá þá gerðu allir sitt besta til að leysa málið og aðstoðuðu börnin hvort annað oft og iðulega  í gegnum tungumálaörðuleikana.

Ég fékk það hlutverk meðal annars að segja þeim frá jólasveinunum okkar þrettán og fannst mér það sérlega gaman að bregða mér í þeirra líki og lýsa heimkynnum, karakter þeirra og fjölskyldu. Þau tóku þátt af öllu hjarta í sögunni og tóku undir á sömu stöðum og ég mundi eftir að mín börn tóku undir á sínum tíma. Hvernig fer Stekkjastaur að því að beygja sig og drekka af spena, nú eða Stúfur að teygja sig upp í háa glugga? Allt var þetta leyst með góðum vilja og margar skemmtilegar útgáfur af þessum frábæru körlum komu í ljós.

Veðrið lék við okkur eins og landsmenn alla og það var sérlega stoltur Íslendingur sem sýndi margt af því áhugaverða sem landið hafði upp á að bjóða. Við fórum út í Viðey, hittum víkinga, kraftajötna, æfðum fótbolta, fórum í reiptog og skoðuðum okkur um í Húsdýragarðinum, svo fátt eitt sé nefnt.

Það var gott að minna sig bæði á einfaldleikann og fjölbreytileikann svo ekki sé minnst á að vera í núinu, ábyrg og í vitund. Já það eru forréttindi að vera í minni vinnu.