Vegan súkkulaðisjeik

Á heitum sumardögum jafnast ekkert á við ís – hvað þá vegan ís!

Í dag deili ég með þér svo trufluðum súkkulaðisjeik að þú trúir varla að hann sé hollur! Hann slær á hverja súkkulaðiþörf og ekki sakar hvað hann er fljótlegur því hann er aðeins úr 4 hráefnum!

Truflaður vegan súkkulaðisjeik með fudge sósu


Ísinn

2 bananar, afhýddir og frosnir

2 msk dökkt lífrænt kakóduft

2-4 dropar stevia með súkkulaðibragði og 1 tsk kókospálmanektar/hlynsíróp

vanilluduft á hnífsoddi

örlítið af vatni eða möndlumjólk

  –

Súkkulaði-fudge

2 msk kakóduft

4 msk kókospálmanektar/hlynsíróp

2-4 dropar stevia

2 msk kókosolía, brædd í vatnsbaði og 1 msk vatn

salt eftir smekk

Ofaná

ristaðar heslihnetur eða möndlur

kakónibbur

1. Byrjið á að útbúa dásamlegu súkkulaði-fudge sósuna með því að bræða kókosolíuna. Setjið hráefni í blandara og vinnið á lágri stillingu þar til silkimjúkt. Bragðið og bætið við sætu eftir þörfum. Geymið í kæli á meðan þú útbýrð ísinn.

2. Skerið frosna banana í bita og vinnið í matvinnsluvél eða blandara ásamt rest af hráefnum þar til ísáferð fæst. Bætið við vökva eftir þörfum. Ef blandarinn er kraftlítill er matvinnsluvél betri kostur.

3. Hellið í fallegt glas og berið strax fram með súkkulaði-fudge sósu, ristuðum hesilhnetum og kakónibbum! Rör eða skeið virka vel. Njótið!

Súkkulaði klikkar aldrei og þessi sjeik ekki heldur.

Ég vona að þið njótið góðs af elsku vinir!


H
eilsa og hamingja,

Júlía,
Lifðu til fulls