Einlæg rukkun!

Það hefur komið mér  á óvart hve langt viðkomandi er tilbúinn að ganga til að hundsa kurteisa beiðni mína um greiðslu fyrir vinnu mína.

Eitt af þvi sem við sjálfstætt starfandi aðilar gerum er að semja sjálf um okkar vinnu, tíma og laun. Í öll mín ár hefur það bara gengið mjög vel. Verkefnin hafa unnist í góðu samstarfi og allir hafa gengið sáttir frá borði.

Því var það mér algjörlega ný reynsla nú í vetur, þegar aðili sem ég taldi mig vera í góðu og heiðarlegu sambandi við, hefur dregið að greiða reikninginn. Verkefnið varð yfir lengra tímabil og tók þar af leiðandi lengri tíma og til að koma til móts við viðkomandi bauð ég að senda reikning fyrir helmingi tímans – vildi með því ljúka vinnunni á heiðarlegum nótum. Ekki var nú heldur um háa fjárhæð að ræða.

En allt kom fyrir ekki og með hverjum mánuðinum sem leið, varð ég meira hissa á þögninni, framkomunni og frestunaráráttuninni… þangað til ég áttaði mig á að við vorum alls ekki að tala sama tungumálið, það var engin einlægur vilji til að ganga frá málinu frá hans hálfu, hreint ekki.

Ég settist niður, skrifaði aftur einlægan og persónulegan tölvupóst en í þetta skiptið gaf ég ákveðinn frest til að ganga frá málinu, eftir það sæi ég mér ekki annað fært í stöðunni en að senda reikninginn áfram til innheimtu. Þetta voru mér erfið skref, en nauðsynleg því ef tilgangur minn með vinnu er njóta mín og lífsins, þá þarf ég að fá greitt fyrir vinnuna mína. Þessi ákvörðun var liður í því.

Það var og er lærdómur að halda öllum þeim góðu stundum í verkefninu í hjarta mér og þykja vænt um það en um leið að loka málinu gagnvart þeim sem réð mig til verksins og setja í ákveðinn farveg.

Þetta fer vel, ég hef tekið málið í mínar hendur og er hætt að verða fyrir vonbrigðum með viðkomandi, það er hans val. Mitt er að veiti mér, sköpun minni og krafti athygli og njóta. Ég valdi því mig og kærleikann, hatrið sigraði ekki!

 

Mynd: Maria Tyutina  fundin á Pexels