Opinberun í beinni

Það verður að viðurkennast að ég varð feimin við að hlusta á viðtalið sem Margrét Blöndal tók við mig, en mér leið mjög vel í hjartanu.

Þegar ég fékk beiðni frá henni Margéti um að koma í Fimmuna svokölluðu í þættinum Fram og til baka og er útvarpað á sunnudagmorgnum á Rás 2 kl. 8 (ókristilegur tími ég veit), hikaði ég ekki, heldur fagnaði því að velja áhrifarík tímabil í lífi mínu og þakka fyrir. Það var gaman að rifja þetta upp, fara í gegnum tilfinningarnar, vináttuna, gleðina og þær áskoranir sem ég hafði valið að fara í gegnum í lífinu sem höfðu áhrif á mig og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Ég ræddi um dásamlegt fólk sem hafði haft áhrif á mig og beint mér í ákveðnar áttir, fólk eins og Unni Arngrímsdóttur, Auði Sæmundsdóttur og Guðna Gunnarssyni. Þá ræddi ég líka um vini mína: Verzlóstelpurnar og Módelsamtakahópinn og síðast en ekki síst börnin mín tvö sem eru endalaus uppspretta af lærdómi og stækkun hjarta míns, já og svo ræddi ég um eyjuna mína í suðri, Gran Canaria, þar sem ég eignaðist nýtt líf,  nýja fjölskyldu og dásamlega vini. Eitthvað kom svo ástin við sögu en aðallega hvernig ég vel mína velsæld í þeim málum eins og að velja að vera hamingjusamlega fráskilin.

Það sem stendur upp úr við þessa skoðun og yfirferð er hversu velsæld mín er mikil og hversu sátt ég er. Ég vel ekki alltaf auðveldu leiðirnar en þetta eru leiðirnar mínar, mitt val og mín saga, sem er jafnmikilvæg og merkileg eins og saga einhvers annars. Að setjast niður og fara yfir þessar breytur var dásamlegt, hreint út sagt dásamlegt.

Viðtalið er í tæpa klukkustund og ef þið hafið áhuga á að hlusta þá getið þið gert það hér: Fram og til baka

 

Takk <3