Coco

Það er dásamleg lífsorka og hamingja falin í því að vera með hund, að byrja daginn á langri göngu um náttúruna er einstakt og gefandi.

Eftir að tíkurnar mínar kvöddu með mánaðar millibili fyrir um tveimur árum síðan, hef ég saknað þess að vera ekki með hund. Að sjálfsögðu er ég búin að veita því athygli og er að bíða eftir að næsti hundur detti í fangið á mér. Þangað til passa ég hunda vina minna og núna yfir páskana er hún Coco hjá mér.

Við förum í 1 – 3ja tíma göngur um Elliðaárdalinn, Fossvogsdalinn, Laugardalinn eða Bústaðahverfið stundum í góðum félagsskap vinkonu minnar en oftast bara við tvær. Í þessum göngum hef ég lagt mig fram um að veita náttúrunni í kringum mig athygli, finna hvernig ég stíg til jarðar, hvernig jörðin tekur við mér og hvernig líkami minn bregst við göngunni. Trén í Elliðaárdalnum hafa einnig vakið okkur Coco til umhugsunar og setjumst við gjarnan niður og öndum að okkur súrefni inn á milli trjánna.

Þegar heim er komið taka allir fagnandi á móti Coco, kjassa hana og klappa. Hún er dásamleg tenging á milli okkar allra, endalaus uppspretta samræðna og kærleiks, henni standa allar dyr opnar og á kvöldin getur hún valið úr rúmi til að sofa í.

Það verða mjög svo gleðilegir páskar á mínu heimili, fullt hús af fólki + Coco = gerist ekki betra.