Höfnunartrigger

Eitt saklaust símtal um daginn gerði það að verkum að einn höfnunartriggerinn minn hrökk í gang og tárin brutust fram.

Þegar ég fór stuttu síðar í göngu í Laugardalinn með vinkonu minni,  var ég einnþá reið, aðallega við sjálfa mig og viðbrögðunum, skammaði mig þessi ósköp yfir þessum tilfinningum og að hleypa skortdýrinu út með þessum líka stæl.

Á sama tíma áttaði ég mig á hvað var að gerast og ræddi þennan höfnunartrigger minn opinskátt í gönguferðinni. Þegar ég fór síðan að kafa dýpra og átta mig á hvaðan þetta kom fór ég að gráta og auðvitað skammaði ég mig fyrir það sem þýddi að ég var komin á byrjunarreit aftur. Það hafði samt sem áður margt gerst í þessari atlotu og nokkra daga á eftir var ég heiðarleg og viðurkenndi vanmátt minn gagnvart þeim tilfinningum sem brutust út. Þær áttu fyllilega rétt á sér og ég tók utan um mig og sagði að þetta væri allt í lagi. Litla stelpan sem foreldrarnir höfðu ekki tíma fyrir, sem afi og amma ólu upp, var alltaf smá á ská hvar sem hún kom, tilheyrði engum en samt mörgum, var bara í góðu lagi. Þessi bakgrunnur gerir hana sérlega sjálfstæða, hún stólar á engan nema sjálfan sig því hún hefur lært að vera hafnað og oft á tíðum sóst í þannig aðstæður og fólk.

Þessi viðbrögð og ferlið sem á eftir fylgdi, kom mér algjörlega í opna skjöldu. Í þessu er heilmikill lærdómur og ég veit að ég get ekki farið fyrr en ég er komin og samþykk mér eins og ég er – en hey….ég er á leiðinni.