Vinkonur blómstra

Heilnæm vinátta gefur rými fyrir mismunandi upplifanir, skoðanir og áherslur, umvefur hverja og eina á sínum forsendum.

Í sumarbústaðaferð okkar vinkvennanna um daginn, ræddum við meðal annars persónulegan vöxt okkar og vilja til verka jafnt sem þroska. Við höfum valið mismunandi brautir í lífinu, farið í mismunandi nám og lagt mismunandi áherslur á líf okkar og framgöngu, erum mjög ólíkar en náum saman á einstakan máta. Þegar ég spurði þær hvernig þær skilgreindu sögnina að blómstra, hvað það þýddi fyrir þeim, fann ég kærleikann umvefja okkur.

Önnur sagði að  henni fyndist hún blómstra þegar hún gleddi aðra,  þegar hún næði að vera í núinu, þjóna viðskiptavinum sínum einlæglega svo þeir væru glaðir og ánægðir með viðskiptin og samskiptin – að hún skilaði af sér góðu dagsverki og fyndist hún hafa haft góð áhrif. Hin sagði okkur sögu frá einu námskeiði sem hún var með fyrir eldri borgara fyrir nokkrum árum síðan. Þar hafði ein konan verið erfið í ölllum samskiptum, svo erfið að hinir þátttakendurnir voru andstyggilegir við hana. Þegar hún kom svo einn daginn á undan öllum hinum og tilkynnti að hún ætlaði ekki að taka áfram þátt í námskeiðinu vildi þessi vinkona mín segja henni einlæglega og frá sínum hjartarótum eitthvað fallegt í þeirra samskiptum og fann eitt andartak þar sem konan hafði sagt skemmtilega sögu af samtíðarfólki sínu. Þegar hún nefndi þetta fór þessi aldraða kona að hágráta eins og barn í fanginu á vinkonu minni en brosti síðan og þakkaði fyrir sig. Vinkona mín sagðist hafa gengið ofar jörðu á leiðinni heim því hún hafði gefið gömlu konunni einlæglega af sér og fyrir henni var þessi atburður ævarandi áminning um það hvernig hún sjálf blómstraði í þjónustu við aðra.

Að blómstra  fyrir mér er að standa jarðtengd, yfirveguð, tilbúin að taka af skarið, gefa af mér og hreinlega takast á loft. Svona eins og blóm sem hefur fengið góðan grunn og næringu, staðið af sér margt, lært margt og er tilbúð að opna, deila með sér og taka á móti velsældinni.

Við erum nú ekki eins ólíkar eftir allt!