Gíraffinn

Það er magnað hve maður heldur fast í reynslu og stífleika í kroppnum og hreinlega trúir ekki sinni eigin upplifun.

Í vikunni sem leið kom upp í huga minn orðið velsæld og hve mikla velsæld maður telur sig eiga skilið. Það er nú ekki eins og maður hafi ekki heyrt þetta áður! Velsæld er orð sem glimur í eyrunum á manni í hverjum einasta Rope Yoga og GlóMotion tíma.  Orð sem maður ræðir og les um í hverri viku….en samt sem áður treystir maður ekki velsældinni þegar hún bankar upp á.

Ég kýs velsæld og hef unnið að henni á mörgum sviðum, hef fengið alla þá velsæld sem ég hef átt skilið og það sem meira er, um leið og ég valdi mig og mína velsæld út úr hjónabandinu þá hef ég notið hennar svo um munar.

Það kom mér því verulega á óvart þegar ég fann að losunin í kroppnum gekk að hluta tilbaka í vikunni sem leið. Ég hreinlega skildi það ekki, hélt að sá tími sem ég valdi til að losa mig væri nóg, sem reyndist ekki því ég hélt áfram að gera nákvæmlega það sama og hingað til.

Mér var bent á aðferð sem kallast gíraffa-aðferðin (ég veit, smá furðulegt nafn á velsældar aðferð) en aðferðin er í stuttu máli þannig að maður fer tilbaka í viðburðina (í æsku í mínu tilfelli) sem maður vill breyta eða koma betur tilfinningalega út úr – og hreinlega breytir útkomunni svo líðanin og upplifunin verði allt önnur – þetta er nefnilega eins og við vitum, alltaf spurning um val á viðhorfi. Ég breyti viðhorfinu til viðburðarins og upplifi því allt aðra útkomu og get unnið mig út úr viðburðinum þannig.

Ég er á góðri leið, er mjög meðvituð um þessa losun og anda þar að auki vel út í stífluna í tímum og mér er létt.

Þessi lærdómur er sérlega gefandi því hann kennir mér að þakka fyrir og velja áfram að vinna að minni velsæld, alltaf, alla daga.