Faðmlag

Það er magnað hve eitt faðmlag getur breytt líðaninni. Það reyndi ég á eigin skinni þegar ég faðmaði stíflu úr æsku minni.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki mikið fyrir rifrildi og uppgjör. Ég hef frekar kosið að þaga og sleppa, því ég er alin upp við að mínar þarfir og mínar tilfinningar séu ekkert merkilegri en aðrar. Amma mín kenndi mér að standa bara upp, hysja upp um mig sokkana og halda áfram.

Þessi aðferð ömmu minnar var hinsvegar ekki notuð þegar óvænt persónulegt verkefni kom upp, í kjölfar andláts frænda míns á dögunum. Líkami minn stífnaði allur upp og tók mig langan tíma að átta mig á af hverju svo var. Náttúrulæknirinn og nálastunguaðilinn sem ég leitaði til, tengdu þetta m.a. við systur mína. Ég áttaði mig ekki á hvora þeirra því ekkert í mínum huga eða hjarta fann slíkt.

Það var ekki fyrr en í jarðarför frænda míns að ég mætti hálfsystur minni föðurmegin, sem ég hef hvorki heyrt eða séð í rúm 15 ár eða frá því að pabbi var jarðaður því ég jarðaði okkar samband líka þá (og hún var ekki í mínum huga þegar  umræðan um systur mína átti sér stað í meðferðum mínum við stíflunni). Við mættumst á milli kirkjubekkjanna og hún stoppaði, leit á mig og rétti fram höndina. Ég horfði á hana í smá stund, sagði sæl  og tók utanum hana, fast og innilega og sleppti. Gekk síðan í burtu án þess að dvelja frekar við.

Daginn eftir fann ég að ég gekk auðveldar upp stigann heima hjá mér og var mér þá bent á að stíflan gæti hafa tengst þessari hálfsystur minni – nokkuð sem ég hafði ekki hugsað út í. Ég stoppaði í smá stund, hugsaði til hennar og faðmlagsins, sendi henni kærleiksljós og hélt glöð í bragði áfram við húsverkin.

Í Rope Yoga tímanum seinna um daginn fann ég losunina í hugleiðslunni í lok tímans, svo um munaði. Þegar við vorum leidd inn í hjartastöðina var eins og mikil þyngsli kæmu yfir mig, mér ýtt ofan í dýnuna af miklum krafti og svo sleppt. Ég missti andann en krafturinn og losunin rauk í gegnum mig og út um fæturna. Ég lá lengi sem lömuð á dýnunni, gat mig hvergi hreyft.

Þegar Kristín kennari kom til mín eftir að allir voru farnir, reis ég upp og sagði henni frá upplifun minni. Fór síðan að hágráta í fanginu á henni eins og lítið barn. Við vorum bara.

Líkaminn er allur að braggast, losunin er hafin og ég farin að hlaupa um, hægt og örugglega. Magnað hve saga okkar er rituð í líkama okkar. Það verður forvitnilegt að fræðast um næstu kafla.