Góður granni

Jóhanna nágranni minn er einstök. Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar ég hitti á hana og samræðurnar eru alltaf gefandi.

Ég hef búið við hlið hennar Jóhönnu í um 15 ár. Hún er ein af þessum manneskjum sem gefa manni einlæga gleði og ánægju, alltaf tilbúin í spjall um daginn og veginn og síðast en ekki síst um  blómin sín. Hún er dæmi um að allt sem þú veitir athygli vex og dafnar. Hún talar aldrei um nágrannann, hallmælir engum heldur tekur ævinlega jákvæðan pól í hæðina. Þegar hún hætti að geta lesið, fékk hún sér hljóðbækur, hún sér glasið ávallt hálf fullt og hugsar í lausnum. Jóhanna hefur líka einstaklega græna fingur og þegar hún bauð mér inn um daginn til að sjá nýjasta blómið hjá sér, þáði ég boðið að sjálfsögðu.

Hún fór með mig beinustu leið inn í stofu að glugganum og sýndi mér blómið, ræddi um tegundina og hvernig hún hafði fylgst með því springa út. Ég verð að viðurkenna að blómarækt er ekki beinlínis mitt Forte en þegar það kemur að Jóhönnu og blómunum hennar þá hef ég allan heimsins tíma og áhuga.

Hún ræðir oft um blómin sín í samhengi við lífið, hvernig barnabörnin hafa upplifað gróðurinn hjá henni, hvernig þau hjónin gróðursettu og unnu saman að garðinum sínum í gegnum tíðina og hvernig það hefur dafnað hjá þeim.

Lífsorka þessara tæplega hundrað ára konu er einstök og ég er aldrei sú sama eftir að hafa hitt á hana og rætt við hana. Hún er alltaf glöð og alltaf að sýsla eitthvað, sérlega áhugasöm um lífið almennt og gleðina, með opið og fallegt hjarta.

Jóhanna er dásamleg fyrirmynd, hún kallar á allt það fallega og góða í samskiptum fólks því það er það sem hún veitir athygli. Og bara svo þið vitið það þá er ég búin að panta að vera þessi hressa í hverfinu árið 2066!