Auðmýkt

Auðmýkt er dásamleg. Hún er vilji og einfalt val og þegar hún er til staðar leikur allt einhvern veginn í höndunum á manni.

Í verkefnum mínum set ég auðmýkt á oddinn. Það er svo fallegt og gefandi að vinna í þannig umhverfi. Stundum tekst það, stundum ekki, svona eins og gengur og gerist, en þegar það gerist nærist ég og hleð mig orku.

Um daginn vann ég að Markþjálfunardeginum 2019. Þetta er árlegur viðburður og eins og nafnið gefur til kynna snýst hann um markþjálfun. Það eru félagasamtök sem standa að baki viðburðinum og hef ég komið að framkvæmdinni í nokkur ár. Stjórn félagsins breytist frá ári til árs og finnst mér það gefandi að kynnast nýju fólki og nýjum aðferðum, áherslum í hvert skipti. Verkefni snúast jú alltaf um fólk.

Þegar ég fór yfir verkefnið í ár og skrifaði skýrslu um vinnuna, fylltist ég þakklæti, þakklæti yfir samstarfsfólkinu og umgjörðinni allri. Það náðist einhver fallegur dans á milli okkar allra, áreynslulaus og án dóms. Enginn fór í vörn eða kallaði á skortdýrið þegar áskoranir komu upp í ferlinu og allir lögðu hreinskilningslega og heiðarlega upp með vinnuna.

Með því að setja auðmýktina á oddinn valdi ég og veitti henni athygli. Það kom mér því ekkert á óvart þegar önnur verkefni með sama að leiðarljósi hrundu gjörsamlega inn á borð til mín.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar!