Súkkulaði brownies

Sykurlausar súkkulaði brownies með möndlusmjörkremi og poppuðu kínóa!

Eftir að ég gerði þessar brownies fyrst var ekki aftur snúið og nú þurfa þær að eiga sér heimastað í frystinum hjá mér svo ég eigi eitthvað að grípa í þegar mig langar í súkkulaði!

Enda blandan af súkkulaðibrownie botni með mjúku möndlusmjöri og stökku kínóa engu lík og algjörlega fullkomin að mínu mati.

 

DSC_1403

 

Mætti lýsa þessum brownies sem.. 

  • stökkar að ofan
  • bráðna í munni
  • fágaðar
  • einfaldar og fljótlegar í gerð

Ég held að þær, ásamt uppskriftum áskorunar eigi eftir að sanna fyrir þér hversu gott hægt er að hafa það án hvíts sykurs. Í áskorun notumst við við náttúrulega sætugjafa eins og steviu, döðlur og kókospálmanektar sem dæmi. Allt eru þetta sætugjafar sem eru lágir í frúktósa og þar af leiðandi betri fyrir heilsuna.

 

DSC_1476 ADAL

 

Brownie með möndlusmjörkremi og poppuðu kínóa

Súkkulaðibrownie
1 ½ bolli valhnetur (einnig má nota möndlur eða pekanhnetur)
½ bolli kókosmjöl eða kókoshveiti (ég notaði fínmalað kókosmjöl)

1 ½  bollar medjool döðlur (ég kaupi í grænmetiskælinum í Costco)
½ bolli hemp fræ
2 msk  kakó
salt

Möndlusmjörkrem
½ bolli möndlusmjör (eða ein 179 gr krukka)
2 msk kókosolía
3 msk kókoskrem (ég notaði creamed coconut frá Cocofina sem fæst í bleikum kassa í Nettó)
salt

Ofaná
poppað kínóa (quinoa puffs, frá Nature crops sem fæst í Nettó)

1. Leggið hnetur í bleyti yfir nóttu eða í 5 klst.

2. Bræðið kókosolíu og kókoskrem í vatnsbaði.

3. Skolið af hnetunum og vinnið þær í matvinnsluvél þar til muldnar niður. Bætið við kókosmjöli og malið niður fínt. Sameinið rest af þurrefnum í matvinnsluvélina og vinnið. Bætið við döðlum ef þið þurfið en blandan ætti að mynda deigkúlu.

4. Þjappið botnin í 15×15 cm kassalaga form fyrir þykkar brownies, notið stærra form fyrir þynnri súkkulaðiköku.

5. Skolið af matvinnsluvél. Setjið öll hráefnin kremsins í matvinnsluvél og vinnið.

6. Hellið kreminu yfir botninn og dreifið poppuðu kínóa yfir. Frystið í minnsta kosti 3 klst en kakan geymist í allt að 3 mánuði eða lengur í frysti.

7. Skerið í ílanga bita og njótið. Geymist fersk í kæli í allt að viku og lengur í fyrsti.

Öll hráefnin fást í Nettó.

Heilsa og hamingja,

Júlía
Lifðu til fulls