Dúndur og æði

Að skella í lás, að velja leiðina, að velja viðbragðið og að velja lærdóminn – er bara oft svo vont/gott, en það virkar!

Um daginn valdi ég óvenjulega leið út úr aðstæðum. Þær voru það óvenjulegar að ég skellti fast viðkomandi hurð og á ekki afturkvæmt. OK hugsaði ég með mér, þetta var erfitt en þetta var nærandi og ég ber fulla ábyrgð á þessum aðstæðum sem ég valdi.

Í tvo daga var ég í lausu lofti og þurfti að halda utan um mig, klappa mér og velja mig. Ég nýtti öll verkfæri Máttar athyglinnar, hugleiddi og opnaði á lærdóminn. Hann var sársaukafullur. Þrátt fyrir það fór ég aldrei í fórnarlambið heldur tók ábyrgð og viðurkenndi að hugsanir mínar væru ekki ég og að ég hefði val og ég ætlaði að velja mig, ganga til mín en ekki frá mér.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég nýti mér gagngert allt litrófið í Mætti athyglinnar og það var stórkostlegt að fara í gegnum það. Sem betur fer á ég fáa en góða vini en þegar einn af þeim gat ekki höndlað aðstæðurnar áttaði ég mig líka á að ég get ekki alltaf treyst vinunum fyrir þeim verkefnum sem ég stend frammi fyrir. Það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim og ekki heldur hægt að ætlast til þess.

En það sem gerðist hinsvegar þegar þessi hurð skelltist í lás var að, margar aðrar hurðir hrukku  upp og val mitt kom enn betur í ljós. Ég stend sterkari eftir þessa reynslu, vel betur og meðvitað viðbragðið og elska vini mína meira. Svo verð ég bara að viðurkenna að það er ekki allt bara dúndur og æði!

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar – og ég vex og dafna svo sannarlega þessi dægrin!