Spenningur og Ketó

Það var enginnt tími til að fara heim, svo mikill var spenningurinn fyrir landsleiknum svo ég hringdi í vinkonu…

Um daginn átti ég erindi í Kórinn, að taka þátt í Mannamóti sem markaðsstofur landsbyggðarinnar bjóða uppá einu sinni á ári. Það var sérlega ánægjulegt að skoða og uppgötva öll þessi áhugaverðu ferðaþjónustufyrirtæki hvaðanæva að af landinu, af nógu er að taka og gaman að ræða uppbygginguna sem átt hefur sér stað.

Þegar klukkan nálgaðist hálf fimm fóru gestir að tínast á brott og virtist sem landsleikurinn sem hefjast átti kl. 16.50 væri aðalástæðan og það átti svo sannarlga um mig. Þegar ég var komin út uppgötvaði ég að ég næði engan veginn heim úr öræfum Kópavogs nema missa af meirihluta fyrri hálfleiks og ég treysti mér hreinlega ekki til að keyra með lýsinguna í útvarpinu.

Þá hringdi ég í vinkonu og átti þessa líka gæðastund með henni og handboltanum þar sem ég hrópaði og tók spennuna út fyrir okkur báðar. Hún ákvað að upplifa leikinn á tímabili í gegnum mig, sagðist ekki hafa taugar í þetta og fór bara að elda. Svo dagurinn endaði í KETO matarboði og fór ég sigrihrósandi heim full af gleði, þakklæti og góðum mat. Svona óvæntar vina-gleðistundir eru mér mikils virði og ekki þarf nú mikið til heldur bara að vera staddur í nágrenninu og langa til að horfa á landsleik með vinkonu sinni.