Tískusýningardaman!

Þrjátíu árum síðar duttum við inn í tískusýningargírinn og skemmtum okkur konunglega. Þvílíkur vinskapur og samkennd.

Henny Hermannsdóttir hélt útgáfuhóf vegna útkomu bókar sinnar ,,Vertu stillt” Henny Hermanns, á Hótel Sögu á dögunum. Við sem vorum í Modelsamtökunum hér í den, hittumst í aðdraganda hófsins og ákváðum að setja upp stutta tískusýningu til að styðja við Henny og koma með smá nostalgíu inn í boðið.

 

Það var eins og við manninn mælt, um leið og við komum í bakherbergið og fórum að setja saman sýninguna duttum við í gamla gírinn. ,,Á einhver svört stigvél að  lána mér við þetta dress?” heyrðist úr einu horni, ,,hvernig á þetta eiginlega að snúa” spurði önnur og ,,hey, það er gat á þessari lopapeysu” sagði sá þriðji sem einfaldlega snéri henni við svo ekki sæist í gatið á gömlu peysunni.

Þegar Puttin on the Ritz hljómaði í hljóðkerfinu fórum við inn á svið, hvert á fætur öðru. Tókum gamla snúninga, stungum höndum í vasa, tókum kúnstpásur og föðmuðum Henny á leið út aftur. Þetta var gleðileg og persónuleg stund, stund okkar allra því þetta eigum við sameiginlegt. Það var nefnilega þannig að þegar við vorum í bransanum þá máttu ekki tveir koma saman svo ekki væri sett upp tískusýning. Við vorum sumsé skemmtiatriðin hér í den. En hér vorum við að skemmta okkur og Henny 🙂

Eftir sýninguna kom ein okkar með þá klikkuðu hugmynd að stofna Hollvinasamtök Modelsamtakanna, bjóða þeim á viðburð einu sinni á ári svo við hefðum ástæðu til að koma saman og sýna föt. Þetta var samþykkt með hlátrasköllum og lófataki.

Já bíðiði bara….