Að springa úr þakklæti

Það var mögnuð tilfinning að stíga fram og mæta í útvarpsviðtal í þáttinn Segðu mér, með Guðna í vikunni sem leið. Ekki það að fara í útvarpsviðtal væri málið heldur erindið sjálft sem var vinátta okkar Guðna, samvinna, Gló Motion og Rope Yoga. Sigurlaug Jónasdóttir með þáttinn Segðu mér bauð okkur til sín en hún er einn af okkar bestu útvarpsmönnum, það er heiður að vera boðin til hennar.

Skrefið sem ég tók með því að fara í viðtalið var stórt og persónulegt því ég útvarpaði vilja mínum (í orðsins fyllstu), tók þá ákvörðun að vera persónuleg, heil og einlæg. Ég stamaði aðeins því það var áskorun að leggja vilja sinn út fyrir alþjóð en það var gott. Á milli okkar þriggja var opin og einlæg umræða, alveg einstakt andrúmsloft og ég naut hverrar mínútu.

Það verður að viðurkennast eins og er að það tekur mig langan tíma að kynnast fólki sem og því að kynnast mér. Ég hleypi ekki svo glatt fólki að mér, vanda mig með vinaval, á fáa en mjög góða vini og hundruð góðra kunningja. Guðni og Gulla konan hans eru vinir mínir og það er gott að vera vinur þeirra. Heiðarleg umræða, virðing og væntumþykja umlykur vináttu okkar sem hefur vaxið í áranna rás. Frá því að ég keypti mér flugfar til Los Angeles til að fara í Rope Yoga tíma af því að ég var ákveðin í að það væri gott að lifa í velsæld og að fara í útvarpsviðtal um þetta ferðalag mitt eru liðin 14 lærdómsrík og þroskandi ár.

Það tók mig ekki langan tíma að treysta Rope Yoga, Gló Mótion lífsspekinni og vináttu okkar en það tók mig mjög langan tíma að treysta þeim fyrir mér. Útvarpsviðtalið opinberaði traust mitt, vilja og markmið og fyrir það er ég þakklát. Ég tók stórt skref áfram á minni þroskabraut með þessu viðtali og hef notið þess síðan.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar!

Þú getur heyrt viðtalið hér!