Facebook Feed

Ábyrgð kótilettunnar

Ég var staddur í tíma með nemendum þar sem rætt var um ýmsa hluti og meðal annars mataræði. Mér varð að orði að ég væri með þyngra móti í kviðnum í dag. Ég sagði frá því að þegar ég kom heim daginn áður hafði fagnað mér yndislegur ilmur. Ég var ekki viss um hvað það var, en vissi að það var gott. Ég get ekki sagt að ég hafi verið svangur, en ilmurinn kitlaði bragðlaukana.

Þegar ég var kominn alla leið inn sagði Guðlaug konan mín við mig að það sé panna í ofninum og biður mig um að fara varlega því skaftið sé örugglega heitt.

Í ofninum blasa við mér fjórar kótilettur, steiktar í smjöri, með raspi og með miklu magni af vel steiktum lauk. Þessar kræsingar eru ekki oft á borðum en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er nefnilega eins og amma matreiddi þær.

Ég ákvað að fá mér tvær kótilettur. Í fullri vitund neytti ég, innbyrti, elskaði og tuggði, og þegar ég hafði lokið við tvær kótilettur sannfærði ég mig um að mig langaði í meira og fékk mér rúmlega hálfa til viðbótar.

Þetta lagðist vel í mig og ég naut kjötsins, lauksins og lífsins. Þegar upp var staðið tók ég eftir því að klukkan var að verða hálf tíu. Klukkustund síðar lagðist ég til hvílu.

Þegar ég hafði sagt nemendunum þessa sögu var ég inntur eftir því af hverju ég væri svona þungur á mér. Ég spurði á móti: Af hverju haldið þið að það sé?

Einn nemandi sagðist halda að smjörinu væri um að kenna.

Annar nefndi raspinn.
Sá þriðji nefndi laukinn.
Sá fjórði taldi líklegast að ástæðan fyrir

þyngslunum væri hversu seint um kvöld ég hafði borðað.

Ég mótmælti öllum þessum tillögum og sagði:

„Það var ég. Enginn annar getur borið ábyrgð á mínum eigin þyngslum.“
... See MoreSee Less

View on Facebook

Að elta snákinn

Tveir veiðifélagar ganga niður stíg í skóginum í hrókasamræðum. Allt í einu finna þeir báðir fyrir óþægindum, neðarlega á fæti, og það rennur upp fyrir þeim að þeir hafa verið bitnir af sama snáknum. Annar þeirra tekur upp vasahníf, sker í sárið, sýgur úr því eitrið og spýtir því út úr sér. Hinn tekur líka upp hníf – stóra sveðju – og ákveður að byrja að elta snákinn til að drepa hann.

Sá sem elti snákinn er látinn. Hinn lifir.

Við hættum að elta snákinn því að við elskum sjálf okkur nógu mikið til að huga að okkur – og við elskum snákinn nógu mikið til að leyfa honum að vera til og fara sína leið.
... See MoreSee Less

View on Facebook

Að kenna sársaukaviðbrögð

Ég fylgist gjarnan með ókunnugum foreldrum og börnum þeirra, svona mér til gamans. Þegar hlaupandi barn dettur og meiðir sig eru þau viðbrögð algengust að foreldrið hlaupi til í taugaveiklun, þrífi barnið upp með látum og spyrji: „Guð minn góður, meiddirðu þig ekki?“

Hvaða skilaboð sendir þessi hegðun? „Þú hlýtur að hafa meitt þig. Þú átt að fara að gráta. Þú átt að fara inn í sársaukann sem þú hlýtur að vera að upplifa.“ Eftir að hafa fylgst með börnum í fjörugum leik þar sem þau reka hausinn í leiktæki og fljúga harkalega á hausinn án þess að kveinka sér fer mann að gruna að oft séu dramatísk viðbrögð við falli tilkomin vegna skilyrðingar frá foreldrum og öðrum aðstandendum. Þessi grunsemd fæst að vissu leyti staðfest þegar maður sér barn detta, líta í kringum sig til að gá hvort mamma og pabbi voru að horfa og hvernig þau bregðast við. Þegar mamma og pabbi sýna skelfingarsvip og hlaupa til byrjar barnið að hágráta, en þegar enginn kippir sér upp við fallið stendur barnið upp, dustar mölina af buxunum og heldur áfram að leika sér. Þetta hef ég séð svo margoft að ekki þarf ég frekari vitnanna við.

Útkomuna úr svona skilyrðingu mætti kalla upphafningu sársaukans – við sköpum í börnum okkar ýktar tilfinningaverur sem fara inn í sársauka og tilfinningalegt uppnám þegar ekki er tilefni til þess.

Spegilmyndin af þessari upphafningu sársaukans er líka til og hún er alveg jafn algeng. Hana getum við kallað ógildingu sársaukans. Sú aðferð sem við þekkjum best endurspeglast í setningum á borð við „hættu þessu væli“ og jafnvel „stórir strákar gráta ekki yfir svona löguðu“ eða eitthvað í þá áttina. Staðreyndin er sú að það er mjög auðvelt að fá börn til að hætta að gráta. Til dæmis með því að beina sjónum þeirra að einhverju öðru – þetta er sérstaklega auðvelt með mjög ung börn (upp að þriggja ára aldri) og yfirleitt dugar að segja í forvitnilegum tóni „sérðu blómið?“ Með eldri börn dugar best að slá á létta strengi, kitla barnið og jafnvel fíflast svolítið.

Þetta er allt mjög skiljanlegt og sjálfur hef ég oft fallið í þessa gryfju. En þessi hegð- unarmynstur hljóta að teljast óskynsamleg. Annars vegar er ýtt undir ýkt sársaukavið- brögð barnanna og hins vegar er ýmsum krókaleiðum beitt til að stöðva grát og önnur sársaukaviðbrögð.

Börnum er oft einungis veitt almennileg athygli þegar þau meiða sig eða eru veik. Þetta eru skrýtin skilaboð sem hafa tamið marga.

Hvað með þá hugmynd að barnið fái sjálft að upplifa sinn sársauka, á sínum forsendum en ekki foreldra sinna eða annarra? Fái sjálft að læra inn á eigin líkama og hjartalag? Og fái sjálft að gráta sig í gegnum sársaukann, eins lengi og það þarf, á sínum forsendum? Af hverju eigum við svona erfitt með að hlusta á börnin okkar gráta? Grátur er viðbragð líkamans og sálarinnar. Komum við í veg fyrir að börn okkar geispi eða hnerri? Bælum við geispa og hnerra?

Sársaukinn er viðbragð sem á hvorki að ýkja né ógilda. Sá sem hefur gert það lifir alltaf í skekktum tilfinningum.

Og hér er ágætt að muna að öll vorum við sjálf börn og erum stundum enn. Þetta gildir allt um okkur líka.
... See MoreSee Less

View on Facebook

Hvað er handbremsa?

Allur vélbúnaður bíls er hannaður til að drífa hann áfram – eitt styður við annað; vélin og hjólabúnaðurinn og vatnskassinn og kveikjan og allt þetta dót sem ég kann ekki góð skil á en veit að skapar þá einingu sem bíllinn er. Allt þetta gerir bílnum kleift að uppfylla hlutverk sitt – sem er að koma fólki og farangri frá einum stað til annars á þægilegan hátt.

Bremsukerfið er hannað til að stöðva framgang bifreiðarinnar, láta hana nema staðar þegar hætta steðjar að (þegar einhver gengur í veg fyrir bílinn), þegar eðlilegar hindranir verða á veginum (rautt ljós) eða þegar á áfangastað er komið. Þetta er eðlilegt hlutverk bremsukerfisins.

Handbremsan hefur annan tilgang. Hún er aukabremsukerfi, einkum ætlað til að tryggja að
bíllinn renni ekki af stað þegar hann er í kyrrstöðu, t.d. þegar lagt er í brekku. Handbremsa er viðnám gagnvart eðlilegu flæði bílsins – hindrun.

Handbremsan er varabremsukerfi.
Af hverju er ég að tala um handbremsuna?
Hefurðu gleymt að taka handbremsuna af áður en þú leggur af stað? Eftir nokkrar mínútur verður þér ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera, þú lítur niður og uppgötvar að handbremsan er á. Um leið og þú losar handbremsuna finnurðu hvað bíllinn á auðveldara með framgönguna – þú finnur hversu mikil áhrif handbremsan hefur, þótt þú hafir ekki endilega tekið almennilega eftir því áður.

Allt viðnámið í lífi okkar er handbremsa. Höfnunin, niðurrifið, flóttinn í fjarveru í gegnum mat, drykk, vinnu, markmið, ræktina, afreksleitina ... við þykjumst ætla að sigra í kappakstri á bíl með handbremsuna á.

Og það er erfitt. Og það er þreytandi. Auðvitað.
Sjáðu handbremsuna. Taktu ábyrgð. Losaðu handbremsuna. Fyrirgefðu þér og losaðu þig undan álögunum. Elskaðu þig. Og farðu þangað sem þú vilt fara, þangað sem þú átt að fara, í eðlilegri og áreynslulausri framgöngu.

Af hverju losar þú hand­ bremsuna um leið og þér verður ljóst að hún er á?
Af því að þú veist að þannig kemstu hraðar áfram. Að þannig kemstu lengra áfram. Að þannig er miklu eðlilegra að keyra bílinn. Að þannig kemurðu í veg fyrir að bíllinn skemmist. Þér hefði þótt fráleitt að halda áfram með handbremsuna á.
... See MoreSee Less

View on Facebook